17.03.2006 18:20

Gubbufréttir



Jæja, þetta ælustúss er nú búið að taka dálítið á taugarnar. Fyrst eftir að ég fékk sojamjólkina þá lagaðist það aðeins en svo hélt það bara áfram þannig að í gær fórum við á barnalæknavaktina í Domus Medica. Þar tók á móti okkur ótrúlega fínn læknir sem heitir Hörður og er frá Ólafsfirði. Ég var líka svo duglegur á meðan hann skoðaði mig. Á endanum vildi læknirinn senda mig í ómskoðun þar sem hann hélt að þetta gæti verið piloric stennosis, það þýðir að vöðvi í magaopinu er of stór þannig að opið verður of þröngt. Í verstu tilfellum æla börn öllu sem þau borða og í sumum tilfellum þarf skurðaðgerð til að laga þetta.

Ég fór með mömmu í ómskoðun í hádeginu í dag á meðan pabbi fór til tannlæknis. Þar var rosafínn læknir sem heitir Jörgen að skoða mig. Hann sagði sérstaklega að ég væri duglegur strákur af því ég var svo góður. Það var svo niðurstaðan að ég er með piloric stennosis en það er alls ekki víst að ég þurfi að fara í uppskurð. Mér líður samt miklu betur og æli mun minna núna, er til dæmis ekki búinn að æla svona miklu í dag.

Ef ég verð ennþá svona góður í fyrramálið þá ætlum við að reyna að fara til Ólafsfjarðar og Akureyrar að hitta fullt af ættingjum, þar á meðal einn langafa og tvær langömmur. Svo sjáum við bara til hvernig mér líður um helgina og heyrum aftur í lækninum eftir helgi.

Ég er líka byrjaður að babla meira, segi á og agú þegar vel liggur á mér. Pabbi vill reyndar meina að ég segi og sé að reyna að segja hakúna matata en ég læt það nú vera.

Annars eru komnar inn nýjar myndir.

Kveðja,
Frosti
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 164
Flettingar í gær: 56
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 147277
Samtals gestir: 28470
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 15:31:47