27.03.2006 14:43
Fullt búið að gerast
Halló halló allir!
Síðasta vika var nú heldur betur viðburðarík hjá mér. Á mánudaginn var ég búinn að versna svo mikið í gubbinu að mamma og pabbi ákváðu að fara með mig á spítalann. Þar skoðaði læknir mig og eftir mikla bið og aðra ómskoðun á þriðjudeginum var ákveðið að ég þyrfti að fara í uppskurð. Þannig var nefnilega að vöðvi í neðra magaopi var orðinn alltof stór og hleypti matnum ekki niður úr maganum.
Ég fór því í aðgerð rétt eftir hádegið á þriðjudaginn, hún gekk sem betur fer mjög vel enda bara topplæknar að vinna á barnaspítala Hringsins. Læknirinn sem skar mig upp heitir Kristján og hann sagðist bara aldrei áður hafa séð eins mikla stækkun á þessum vöðva og hjá mér.
Ég þurfti því að eyða allri síðustu viku á spítalanum en það var allt í lagi því bæði mamma og pabbi gátu verið hjá mér, við fengum okkar eigin einkaherbergi. Þess vegna fór bara nokkuð vel um okkur. Allir hjúkrunafræðingarnir voru líka svo góðir við mig. Þeim fannst ég líka svo sætur, sumar konurnar ætluðu bara að fá að eiga mig.
Mér líður miklu betur eftir aðgerðina, ekkert meira leiðindagubbustand. Stundum kemur reyndar smá upp úr mér þegar ég er gráðugur og næ ekki að ropa en ekkert óeðlilegt. Ég er farinn að drekka hellings og fer þá vonandi að þyngjast aftur. Áður en ég fór í aðgerðina var ég bara búinn að þyngjast um 100 grömm á 2 vikum eftir að hafa þyngst um u.þ.b. hálft kíló á viku fram að því. Stundum fæ ég reyndar sára verki í magann vegna þess að sárið er ennþá að gróa en það ætti allt að koma á næstu dögum. Á morgun fer ég aftur á spítalann og þá verða saumarnir teknir og athugað hvort allt sé ekki örugglega í lagi.
Annars er ég orðinn 7 vikna gamall, ekkert smá sem tíminn flýgur og ég er orðinn stór.
Það eru komnar inn nýjar myndir, m.a. af spítalanum.
Kveðja,
Frosti
Flettingar í dag: 423
Gestir í dag: 171
Flettingar í gær: 56
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 147292
Samtals gestir: 28477
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 15:52:51