Færslur: 2006 Mars
27.03.2006 14:43
Fullt búið að gerast
Halló halló allir!
Síðasta vika var nú heldur betur viðburðarík hjá mér. Á mánudaginn var ég búinn að versna svo mikið í gubbinu að mamma og pabbi ákváðu að fara með mig á spítalann. Þar skoðaði læknir mig og eftir mikla bið og aðra ómskoðun á þriðjudeginum var ákveðið að ég þyrfti að fara í uppskurð. Þannig var nefnilega að vöðvi í neðra magaopi var orðinn alltof stór og hleypti matnum ekki niður úr maganum.
Ég fór því í aðgerð rétt eftir hádegið á þriðjudaginn, hún gekk sem betur fer mjög vel enda bara topplæknar að vinna á barnaspítala Hringsins. Læknirinn sem skar mig upp heitir Kristján og hann sagðist bara aldrei áður hafa séð eins mikla stækkun á þessum vöðva og hjá mér.
Ég þurfti því að eyða allri síðustu viku á spítalanum en það var allt í lagi því bæði mamma og pabbi gátu verið hjá mér, við fengum okkar eigin einkaherbergi. Þess vegna fór bara nokkuð vel um okkur. Allir hjúkrunafræðingarnir voru líka svo góðir við mig. Þeim fannst ég líka svo sætur, sumar konurnar ætluðu bara að fá að eiga mig.
Mér líður miklu betur eftir aðgerðina, ekkert meira leiðindagubbustand. Stundum kemur reyndar smá upp úr mér þegar ég er gráðugur og næ ekki að ropa en ekkert óeðlilegt. Ég er farinn að drekka hellings og fer þá vonandi að þyngjast aftur. Áður en ég fór í aðgerðina var ég bara búinn að þyngjast um 100 grömm á 2 vikum eftir að hafa þyngst um u.þ.b. hálft kíló á viku fram að því. Stundum fæ ég reyndar sára verki í magann vegna þess að sárið er ennþá að gróa en það ætti allt að koma á næstu dögum. Á morgun fer ég aftur á spítalann og þá verða saumarnir teknir og athugað hvort allt sé ekki örugglega í lagi.
Annars er ég orðinn 7 vikna gamall, ekkert smá sem tíminn flýgur og ég er orðinn stór.
Það eru komnar inn nýjar myndir, m.a. af spítalanum.
Kveðja,
Frosti
17.03.2006 18:20
Gubbufréttir
Jæja, þetta ælustúss er nú búið að taka dálítið á taugarnar. Fyrst eftir að ég fékk sojamjólkina þá lagaðist það aðeins en svo hélt það bara áfram þannig að í gær fórum við á barnalæknavaktina í Domus Medica. Þar tók á móti okkur ótrúlega fínn læknir sem heitir Hörður og er frá Ólafsfirði. Ég var líka svo duglegur á meðan hann skoðaði mig. Á endanum vildi læknirinn senda mig í ómskoðun þar sem hann hélt að þetta gæti verið piloric stennosis, það þýðir að vöðvi í magaopinu er of stór þannig að opið verður of þröngt. Í verstu tilfellum æla börn öllu sem þau borða og í sumum tilfellum þarf skurðaðgerð til að laga þetta.
Ég fór með mömmu í ómskoðun í hádeginu í dag á meðan pabbi fór til tannlæknis. Þar var rosafínn læknir sem heitir Jörgen að skoða mig. Hann sagði sérstaklega að ég væri duglegur strákur af því ég var svo góður. Það var svo niðurstaðan að ég er með piloric stennosis en það er alls ekki víst að ég þurfi að fara í uppskurð. Mér líður samt miklu betur og æli mun minna núna, er til dæmis ekki búinn að æla svona miklu í dag.
Ef ég verð ennþá svona góður í fyrramálið þá ætlum við að reyna að fara til Ólafsfjarðar og Akureyrar að hitta fullt af ættingjum, þar á meðal einn langafa og tvær langömmur. Svo sjáum við bara til hvernig mér líður um helgina og heyrum aftur í lækninum eftir helgi.
Ég er líka byrjaður að babla meira, segi á og agú þegar vel liggur á mér. Pabbi vill reyndar meina að ég segi já og sé að reyna að segja hakúna matata en ég læt það nú vera.
Annars eru komnar inn nýjar myndir.
Kveðja,
Frosti
14.03.2006 21:27
5 vikna og 3 daga gamall
Halló allir!
Á laugardaginn varð ég 5 vikna. Alveg ótrúlegt hvað tíminn flýgur. Það er búið að vera mikið gubbustand á mér síðustu daga sem er frekar leiðinlegt. Reyndar aðallega leiðinlegt fyrir þá sem þurfa að þrífa það upp því ég hef lítið látið það á mig fá, brosi bara ef eitthvað er. Mamma og pabbi eru búin að standa í rannsóknum á því hvað þetta gæti verið og síðasta uppástungan þeirra er að þetta hafi verið þurrmjólkin sem ég var að drekka. Ég er því búinn að skipta yfir í einhverja sojategund og það virðist ætla að virka betur.
Að því frátöldu dafna ég bara mjög vel. Ég er alltaf að lyfta mér hærra og hærra sjálfur og get næstum því haldið höfði alveg sjálfur. Í dag var ég líka í ömmustólnum að skoða spiladósina mína og leikföngin og byrjaði að babla smá við spiladósina. Ég hlusta líka mikið á tónlist og finnst lagið My delusions með Ampop rosalega skemmtilegt. Ragnheiður Gröndal og Mugison eru líka í uppáhaldi hjá mér og svo auðvitað Tom Waits og Travis enda væri ekki annað hægt með þessa foreldra sem ég á.
En nóg um það, það eru komnar inn nýjar og skemmtilegar myndir. Látið endilega heyra í ykkur, þið eruð svo skemmtileg.
Kveðja,
Frosti
10.03.2006 17:19
Nýjar nýjar myndir
Hér er ég uppá öxlinni á Matta afa. Vildi bara láta ykkur vita af því að það eru komnar inn nýjar myndir. 2 heimsóknir í Suðurásinn og Guðný frænka komin í heimsókn.
Kveðja,
Frosti
08.03.2006 20:00
Stór og stækka
Jæja, ungbarnaeftirlitið kom í dag og mældi mig. Ég er orðinn 5700 grömm, búinn að þyngjast um tæpt hálft kíló frá því síðast. Ég fer í skoðun uppá Heilsugæslu næsta þriðjudag og þá verður mælt hvað ég er orðinn langur.
Ég er ennþá jafn duglegur að drekka, þamba og þamba alveg. Hins vegar er ég farinn að gubba miklu meira núna, stundum koma alveg gusurnar uppúr mér. En ég brosi bara samt, þýðir ekkert annað.
Kveðja,
Frosti
06.03.2006 22:21
Enn koma nýjar myndir
Pabbi og mamma eru svo dugleg að taka myndir af mér að það er komið enn eitt nýtt albúm inn. Fullt af flottum myndum af okkur.
Annars er ekkert voðalega mikið að frétta, ég er farinn að sofa aðeins lengur á næturnar og vaka lengur á daginn. Ungbarnaeftirlitið kemur á miðvikudaginn og ég hlakka til að sjá hvað ég er orðinn stór. Ég stækka svo mikið á hverjum degi.
Kveðja,
Frosti
04.03.2006 22:55
Mánaðargamall
Núna er ég orðinn mánaðargamall. Þessar fjórar vikur eru búnar að vera frekar fljótar að líða. Ég held bara áfram að stækka og drekka.
Í tilefni afmælisins eru komnar inn nýjar myndir af mér.
Kveðja,
Frosti
02.03.2006 22:14
Nýjar myndir
Netið datt út þannig að við höfum ekki getað sett inn nýjar myndir. En það eru komnar margar góðar myndir inn núna. Ég er farinn að brosa og brosa og stækka sífellt meira. Ungbarnaeftirlitskonan kom og mældi mig í gær og ég var orðinn 5250 grömm.
Afi Haukur keypti handa mér leikteppi í dag og ég var hæstánægður með að komast á það. Brosti mínu blíðasta til mömmu og pabba. Það er svo litríkt og spilar alls konar tónlist og hljóð. Gaman að fá eitthvað flott að skoða.
Endilega skoðið myndirnar og segið eitthvað sniðugt, mér finnst svo gaman að heyra í ykkur.
Kveðja,
Frosti
- 1
Flettingar í dag: 224
Gestir í dag: 92
Flettingar í gær: 56
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 147093
Samtals gestir: 28398
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 12:05:17