Færslur: 2006 Júlí

28.07.2006 21:58

Tönnslukall



Það er komin upp önnur vinnukona!  Af því tilefni fékk ég tannbursta og þótt það hafi verið skrítið að bursta fyrst finnst mér það mjög gott núna. Bursta meira að segja sjálfur stundum! Ég er ennþá mjög pirraður í gómnum,svo það verður líklega ekki langt í næstu tönn.
Svo er ég farinn að fá mjólkurkex að naga einstaka sinnum. Það er samt varla að mamma þori að gefa mér svoleiðis því ég er svo voðalega duglegur að bíta að oft næ ég stórum bita úr kexinu áður en það blotnar! Mamma vill nú ekki að það fari að standa í mér svo hún er frekar óróleg með þetta. Svo fékk ég soðna kartöflu með gulrótarmauki í kvöldmat í gær og það fannst mér algjört nammi. Ég ljóma líka allur þegar ég sé grautarskál nálægt mér, þá veit ég sko alveg hvað er að gerast!
Pabbi er búinn í fæðingarorlofinu sínu og farinn að vinna í löndun. Hann var að vinna rosalega lengi þrjá daga í röð og ég sá hann lítið. Þegar hann kom svo heim í dag var ég búinn að vera mjög pirraður, enda slappur í maganum og klæjaði líka í góminn. En þegar ég sá pabba varð ég svo glaður og lék á alls oddi. Greinilega búinn að sakna pabba,enda er hann bestur. Við erum samt voða ánægð með þessa nýju vinnu því pabbi fær svo góð frí inn á milli sem hann getur notað til að dúllast með okkur mömmu
Núna í augnablikinu er ég uppi í Suðurás með pabba. Mamma er ein heima því hún er lasin, svo hún ákvað að ritarast smá og skella inn nýjum myndum. Þær eru mjög flottar þótt ég segi sjálfur frá Endilega kíkið.

Helgarkveðja, Frosti ofurtannburstari.

18.07.2006 20:51

Halló allir!



Ég og Ólína stóra frænka mín,sem var alveg rosalega dugleg að passa mig

Af mér er allt gott að frétta. Fór í skoðun í gær og sprautu. Ég er orðin 10 kíló og 150 grömm og heilir 70 cm! Stór strákur.
Svo er komin upp ein lítil tönnsla! Mamma fann hana á föstudagskvöld og nú verður hún sko að gefa mér tannfé..jei!
Það var rosalega gaman á Ólafsfirði eins og þið getið séð á myndunum. Gaman að hitta allt fólkið og fara í gönguferðir í bænum. Við mamma og pabbi erum sko alveg sammála um að fara aftur sem fyrst og að gera blúshátíðarferð að árlegri uppákomu hjá okkur. Við viljum bara þakka Guðnýju stórfrænku og Ægi fyrir allt saman og auðvitað Ásdísi Maríu fyrir að lána okkur herbergið sitt. Knús til ykkar allra!

04.07.2006 14:10

Afmæliskall



Halló allir!

Í dag á ég afmæli. Ég er orðinn svo rosalega stór, alveg 5 mánaða í dag. Ég ætla að eyða deginum í að syngja afmælissönginn minn, bæði í Jórufellinu og líka í Suðurásnum. Svo fæ ég vonandi eitthvað gott að borða á afmælisdaginn, búinn að fá graut og fæ vonandi banana eða bananamauk í kvöld. Maður verður nú að leyfa sér eitthvað á afmælisdaginn sinn.

Á morgun ætlum við svo í laaaangan bíltúr, alla leið norður í Eyjafjörð. Ég ætla að heimsækja ættingja bæði á Akureyri og Ólafsfirði. Það verður gaman.

Munið svo að skoða myndirnar mínar og segja hvað ykkur finnst.

Kveðja,
Frosti

01.07.2006 01:07

Halló halló



Úlfur og Frosti sætir saman

Það er sko margt búið að vera í gangi hjá mér síðustu daga. Við mamma og pabbi fórum upp í sveit og vorum í viku. Það var rosalega gaman. Ég fékk að leika við strákana og skoða hundana á bænum. Svo voru auðvitað allir að knúsa mig,enda er ég svo knúsulegur. Mamma var síðan að vinna og á meðan brölluðum við pabbi ýmislegt saman. Við fylgjumst auðvitað með HM og svona, og er ég mjög áhugasamur um boltann, enda er svo margt að gerast og flottir litir á vellinum.
Eins og þið sjáið á myndinni er ég orðinn svo stór! Það eru 15 mánuðir á milli okkar Úlfs en ég virðist ætla að stefna á að ná honum sem fyrst. Mamma er ekki alveg að ná þessu,litla barnið hennar bara stækkar og stækkar! Enda er ég svo duglegur að borða.
Það er komið inn nýtt albúm með alveg fullt af myndum, eitthvað um 200 stykki..mamma og pabbi virðast ekki vera að róast í myndabrjálæðinu
Nú er pabbi kominn í mánaðarfrí og við ætlum sko að hafa það gott litla fjölskyldan. Í næstu viku ætlum við svo að fara norður til Ólafsfjarðar. Það verður nú gaman, fullt af skemmtilegu fólki og svona.
Verið svo endilega í bandi, við ætlum að vera dugleg að rölta niður í bæ þegar það er gott veður, þannig að ef þið viljið koma með í ísferð á Austurvöll þá látið þið bara heyra í ykkur.

Kveðja, Frosti stóri strákur.
  • 1
Flettingar í dag: 92
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 56
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 146961
Samtals gestir: 28321
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 11:44:11