14.06.2006 01:52

4 mánaða kútur



Jæja, þá er maður bara orðinn 4 mánaða..tíminn flýgur áfram!

Af mér er allt gott að frétta. Ég er loksins að sættast við að vera í vagninum mínum, ef ég fæ að sitja uppi og horfa í kringum mig. Ég er líka svo forvitinn, það er margt að sjá þegar maður er svona lítill. Svo er ég farinn að fá aðeins fjölbreyttari mat, fleiri tegundir af grautum, stappaðan banana og epla/mangó mauk. Mér finnst þetta allt saman hrikalega gott, enda er ég matargat og stækka eftir því.
Ég sef eiginlega allar nætur, þvílíkt draumabarn! Um daginn svaf ég 15 tíma, frá 18-9! Mömmu var nú bara hætt að lítast á þetta, en ætli ég hafi ekki bara verið að taka vaxtarkipp. Þá þarf maður nú að safna orku sko! Þið getið ímyndað ykkur hvort ég var ekki svangur og þyrstur eftir þann dúr!
Svo ætlum við fjölskyldan að fara norður í byrjun júli, á Ólafsfjörð og Akureyri. Það verður sko gaman, því þar á ég tvær langömmur og fullt af öðrum skemmtilegum ættingjum. Mamma og pabbi ætla að nota tækifærið og kíkja á blúshátíðina á Ólafsfirði, en ætli ég bíði ekki með það í nokkur ár í viðbót
Það er annars komið inn nýtt albúm,stútfullt af krúttmyndum.
Segjum þetta gott í bili, bið að heilsa ykkur!

Kveðja, Frosti bestabarn.

29.05.2006 23:21

Smá Frostafréttir



Ég er eldhress að vanda. Duglegur að drekka,borða,sofa og vera krúttulegur. Mamma er búin að vera að reyna að fara út með mig í vagninn en ég hef nú alls ekki verið ánægður með það. Hef bara staðið á orginu þangað til ég var tekinn upp. En mamma gerði enn eina tilraun í kvöld og það gekk nokkuð vel. Ég grét eiginlega ekki neitt,horfði bara forvitinn í kringum mig og dottaði svo aðeins. Mamma vonast til að ég fari að vera auðveldari úti í þessum vagni,það er svo gaman að fara aðeins út og svona. Ekkert stuð að hanga alltaf inni.
Ég verð 4 mánaða eftir nokkra daga. Þetta er svo fljótt að líða! Ég er farin að bera mig til við að snúa mér, mamma heldur að það komi bara á næstu dögum jafnvel. Svo eru tennurnar farnar að pirra mig dálítið, fyrstu tvær eru aaalveg að koma upp! Því fylgir náttúrulega kláði og pirringur, en ég naga bara allt sem fyrir verður :) Ég er samt svo góður strákur að ég brosi oftast bara og hlæ mikið. Uppáhalds lagið mitt er afi minn og amma mín, sem passar alveg því ég á svo góðar ömmur og afa.
Það er komið nýtt albúm með obboslega krúttlegum myndum að vanda. Heyrumst svo bara hress!

Kveðja, Frosti ofurkrútt.

20.05.2006 00:58

Hæ!



Þá er ég orðinn 15 vikna stór strákur. Ég fór í vigtun og sprautu um daginn og er kominn yfir átta kílóin í þyngd! Ég var rosa duglegur, fór ekkert að gráta þegar læknirinn sprautaði mig. En mér fannst ekki gaman þegar hann kíkti í eyrun mín.
Á morgun ætla ég í Eurovision grillpartý upp í Suðurás til ömmu Ólafar og afa Matta. Svo ætla þau að passa mig meðan mamma og pabbi kíkja í bæinn. Það verður sko stuð, þau eru svo skemmtileg.
Í tilefni af Eurovisionhelginni er komið inn nýtt albúm með fullt fullt af flottum myndum.
Og veriði svo dugleg að kommenta þarna!!

Kveðja, Frosti.

11.05.2006 00:02

Nýjar myndir og fullt af fjöri



Hæhó!

Ég er alveg ótrúlega hress. Það voru líka að koma inn nýjar myndir og það er svo gaman. Svo var ég líka í sturtu áðan, það er sko hressandi.

Á morgun fer ég í ungbarnaeftirlit og á að fá sprautu. Það er ekki hresst en ég verð örugglega duglegur af því ég er orðinn svo stór.

Látið endilega heyra í ykkur.

Kveðja,
Frosti

04.05.2006 23:48

3 mánaða gutti


Jæja,þá er ég bara orðinn 3 mánaða. Ég held bara áfram að stækka á hraða ljóssins, mamma og pabbi sjá nánast dagamun á mér. Enda er ég duglegur að drekka. Svo fékk ég ávaxtamauk í fyrsta skipti í dag og nammi namm,það var sko gott. Smjattaði út í eitt.
Við mamma fórum í sveitina með ömmu og afa. Þau pössuðu mig á meðan mamma vann á hótelinu. Það var rosa gaman í sveitasælunni,langt síðan við hittum allt skemmtilega fólkið síðast. En mamma saknaði mín reyndar alveg hrikalega meðan hún var að vinna, þó við værum nú í sömu byggingunni. Pabbi var fyrir norðan á meðan og við mamma urðum voða glöð að fá hann heim aftur.
Annars verð ég bara sætari og skemmtilegri með hverjum deginum. Mamma og pabbi vita bara ekki hvar þetta endar ;)
Í tilefni dagsins er komið inn nýtt myndaalbúm.

Afmæliskveðja frá Frosta

22.04.2006 16:36

Halló



Nú erum við sko að dansa,haldiði ekki bara að það séu komnar inn nýjar myndir!

Kveðja, Frosti.

19.04.2006 13:14

Afmæliskveðja



Hún Anna, langamma mín, á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið amma!

Kveðja,
Frosti

15.04.2006 16:38

Anna afmælisbarn


Hæ!
Anna Lilja, bestasta frænka mín,á sko afmæli í dag. Hún er fyrir norðan með ömmu,afa og Ásdísi hinni bestustu frænku svo ég get víst ekki knúsað hana. En ég knúsa hana bara tvöfalt þegar hún kemur heim. Til hamingju með daginn elsku Anna! :)

Kveðja, Frosti páskaungi.

14.04.2006 22:04

Nýjar myndir



Ha!? Bara strax komnar inn nýjar myndir!

Gleðilega páska!

Kveðja,
Frosti

13.04.2006 13:48

Fleiri myndir, meira gaman



Halló!

Síðustu dagar hafa ekki verið neitt sérlega skemmtilegir hjá mér. Ég er búinn að vera með svo mikið kvef síðustu vikur og um síðustu helgi fékk ég líka rosalega ljótan hósta. Þess vegna fóru mamma og pabbi með mig á spítalann þrisvar sinnum á mánudaginn og þriðjudaginn. Í seinasta skiptið var ég líka kominn með yfir 39 stiga hita. Læknirinn sem skoðaði mig þá sagði líka að ég væri með vott af lungnabólgu og gaf mér sýklalyf við því. Það er rosalega skrýtið, með sætu ávaxtabragði, rosalega sterkri lykt og ískalt. En það virkar samt og ég er allur að koma til. Hitinn er löngu farinn og kvefið er að lagast. Nú er bara verst að lyfið fer svolítið illa í magann minn en ég reyni samt að vera bara hress. Þýðir ekkert annað.

Vildi líka láta ykkur vita að það eru komnar nýjar myndir. Gaman gaman.

Kveðja,
Frosti

07.04.2006 11:26

Halló



Hæbbsí.

Fyrir þau ykkar sem voruð ekki búin að taka eftir því þá er komið inn nýtt myndaalbúm. Þar eru meðal annars myndir frá því ég fór í gistingu upp í Suðurás og þegar ég fékk graut og ýmislegt skemmtilegt.

Það var alveg ótrúlega gaman að gista hjá ömmu og afa í Suðurásnum. Ég fékk að nota nýja ferðarúmið mitt og svaf í nýja vagninum mínum og kúrði hjá ömmu og afa og svo fékk ég líka fullt gott að borða. Svo voru amma og afi svo góð og skemmtileg. Ég vona að ég geti fengið að gista hjá þeim aftur sem fyrst.

Annars á hann Matti afi minn afmæli í dag. Til hamingju með afmælið afi!

Ég átti líka afmæli á þriðjudaginn og þá varð ég 2 mánaða. Alltaf að stækka.

Kveðja,
Frosti

01.04.2006 15:28

8 vikna í dag



Jei, ég er 8 vikna í dag. Styttist í að ég verði orðinn 2 mánaða. Ég líka stækka bara og stækka. Þamba mjólkina sem aldrei fyrr og fékk smá graut í morgun í fyrsta skiptið.

Í kvöld fer ég svo í fyrsta skiptið í pössun upp í Suðurás til Ólöfu ömmu og Matta afa. Þau ætla að passa mig á meðan mamma og pabbi fara út og svo gistum við þar. Ég hlakka til.

Ég er líka búinn að fá vagn. Ofsalega flottan, bláan Chicco kerruvagn. Það verður nú gaman að geta komist út að labba með mömmu og pabba. Eða meira svona að þau labba með mig og ég sef. Það verður samt gaman.

Kíkið á nýju myndirnar mínar og haldið endilega áfram að láta mig vita hvað ég er sætur.

Kveðja,
Frosti

27.03.2006 14:43

Fullt búið að gerast



Halló halló allir!

Síðasta vika var nú heldur betur viðburðarík hjá mér. Á mánudaginn var ég búinn að versna svo mikið í gubbinu að mamma og pabbi ákváðu að fara með mig á spítalann. Þar skoðaði læknir mig og eftir mikla bið og aðra ómskoðun á þriðjudeginum var ákveðið að ég þyrfti að fara í uppskurð. Þannig var nefnilega að vöðvi í neðra magaopi var orðinn alltof stór og hleypti matnum ekki niður úr maganum.

Ég fór því í aðgerð rétt eftir hádegið á þriðjudaginn, hún gekk sem betur fer mjög vel enda bara topplæknar að vinna á barnaspítala Hringsins. Læknirinn sem skar mig upp heitir Kristján og hann sagðist bara aldrei áður hafa séð eins mikla stækkun á þessum vöðva og hjá mér.

Ég þurfti því að eyða allri síðustu viku á spítalanum en það var allt í lagi því bæði mamma og pabbi gátu verið hjá mér, við fengum okkar eigin einkaherbergi. Þess vegna fór bara nokkuð vel um okkur. Allir hjúkrunafræðingarnir voru líka svo góðir við mig. Þeim fannst ég líka svo sætur, sumar konurnar ætluðu bara að fá að eiga mig.

Mér líður miklu betur eftir aðgerðina, ekkert meira leiðindagubbustand. Stundum kemur reyndar smá upp úr mér þegar ég er gráðugur og næ ekki að ropa en ekkert óeðlilegt. Ég er farinn að drekka hellings og fer þá vonandi að þyngjast aftur. Áður en ég fór í aðgerðina var ég bara búinn að þyngjast um 100 grömm á 2 vikum eftir að hafa þyngst um u.þ.b. hálft kíló á viku fram að því. Stundum fæ ég reyndar sára verki í magann vegna þess að sárið er ennþá að gróa en það ætti allt að koma á næstu dögum. Á morgun fer ég aftur á spítalann og þá verða saumarnir teknir og athugað hvort allt sé ekki örugglega í lagi.

Annars er ég orðinn 7 vikna gamall, ekkert smá sem tíminn flýgur og ég er orðinn stór.

Það eru komnar inn nýjar myndir, m.a. af spítalanum.

Kveðja,
Frosti

17.03.2006 18:20

Gubbufréttir



Jæja, þetta ælustúss er nú búið að taka dálítið á taugarnar. Fyrst eftir að ég fékk sojamjólkina þá lagaðist það aðeins en svo hélt það bara áfram þannig að í gær fórum við á barnalæknavaktina í Domus Medica. Þar tók á móti okkur ótrúlega fínn læknir sem heitir Hörður og er frá Ólafsfirði. Ég var líka svo duglegur á meðan hann skoðaði mig. Á endanum vildi læknirinn senda mig í ómskoðun þar sem hann hélt að þetta gæti verið piloric stennosis, það þýðir að vöðvi í magaopinu er of stór þannig að opið verður of þröngt. Í verstu tilfellum æla börn öllu sem þau borða og í sumum tilfellum þarf skurðaðgerð til að laga þetta.

Ég fór með mömmu í ómskoðun í hádeginu í dag á meðan pabbi fór til tannlæknis. Þar var rosafínn læknir sem heitir Jörgen að skoða mig. Hann sagði sérstaklega að ég væri duglegur strákur af því ég var svo góður. Það var svo niðurstaðan að ég er með piloric stennosis en það er alls ekki víst að ég þurfi að fara í uppskurð. Mér líður samt miklu betur og æli mun minna núna, er til dæmis ekki búinn að æla svona miklu í dag.

Ef ég verð ennþá svona góður í fyrramálið þá ætlum við að reyna að fara til Ólafsfjarðar og Akureyrar að hitta fullt af ættingjum, þar á meðal einn langafa og tvær langömmur. Svo sjáum við bara til hvernig mér líður um helgina og heyrum aftur í lækninum eftir helgi.

Ég er líka byrjaður að babla meira, segi á og agú þegar vel liggur á mér. Pabbi vill reyndar meina að ég segi og sé að reyna að segja hakúna matata en ég læt það nú vera.

Annars eru komnar inn nýjar myndir.

Kveðja,
Frosti

14.03.2006 21:27

5 vikna og 3 daga gamall



Halló allir!

Á laugardaginn varð ég 5 vikna. Alveg ótrúlegt hvað tíminn flýgur. Það er búið að vera mikið gubbustand á mér síðustu daga sem er frekar leiðinlegt. Reyndar aðallega leiðinlegt fyrir þá sem þurfa að þrífa það upp því ég hef lítið látið það á mig fá, brosi bara ef eitthvað er. Mamma og pabbi eru búin að standa í rannsóknum á því hvað þetta gæti verið og síðasta uppástungan þeirra er að þetta hafi verið þurrmjólkin sem ég var að drekka. Ég er því búinn að skipta yfir í einhverja sojategund og það virðist ætla að virka betur.

Að því frátöldu dafna ég bara mjög vel. Ég er alltaf að lyfta mér hærra og hærra sjálfur og get næstum því haldið höfði alveg sjálfur. Í dag var ég líka í ömmustólnum að skoða spiladósina mína og leikföngin og byrjaði að babla smá við spiladósina. Ég hlusta líka mikið á tónlist og finnst lagið My delusions með Ampop rosalega skemmtilegt. Ragnheiður Gröndal og Mugison eru líka í uppáhaldi hjá mér og svo auðvitað Tom Waits og Travis enda væri ekki annað hægt með þessa foreldra sem ég á.

En nóg um það, það eru komnar inn nýjar og skemmtilegar myndir. Látið endilega heyra í ykkur, þið eruð svo skemmtileg.

Kveðja,
Frosti
Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 128
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 90909
Samtals gestir: 18806
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 15:10:35